Grindavíkursókn

Grindavíkursókn

Um Grindavíkurkirkju

Staðarstaður er forn kirkjustaður sem fyrst er getið um í heimildum um 1200.
Staðarstaður var kirkjustaður Grindavíkurprestakalls frá 1836 – 1909. Kirkjan var timburkirkja.

Hinn 1. apríl 1909 tók smiðurinn Tryggvi Árnason að sér að reisa fyrstu kirkjuna í Grindavík og koma því efni sem til þurfti í bygginguna um borð í skip í Reykjavíkurhöfn. Hér í Grindavík átti síðan að nálgast timbrið og annað efni um borð og flytja það á kirkjustaðinn fyrirhugaða. Þá var hér hvorki vegur né bryggja. Hvert heimili átti að skaffa tiltekið magn af möl og sandi.
Altaristöfluna ,,Kristur lægir sjó og vind” málaði Ásgrímur Jónsson og kostaði hún 300 krónur.
Einar Jónsson útvegsbóndi í Garðhúsum gaf töfluna.
Kirkjubyggingin kostaði 4.475 krónur og var húsið vígt 26. september 1909.

Prestur var Brynjólfur Gunnarsson, sem lést skömmu síðar og sr. Brynjólfur Magnúss tók við árið 1910-1947.

Fljótlega eftir 1960 var farið að ræða um nýja kirkjubyggingu og var fyrsta skóflustungan tekin árið 1972.
Núverandi kirkja var vígð 26. september 1982. Prestur var sr. Jón Árni Sigurðsson en hann var prestur frá 1947-1985 eða í 38 ár.
Biskup var hr. Pétur Sigurgeirsson. Kirkjan tekur 240 manns í sæti en 350 sé einnig setið í Safnaðarheimilinu.
Kirkjan kostaði 2.8 milljónir í gömlum krónum.
Arkitekt kirkjunnar er Ragnar Emilsson.

Sóknarprestar í Grindavíkurkirkju frá 1972.
Sr. Jón Árni Sigurðsson, sóknarprestur frá árinu 1947 – 1985.
Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur frá árinu 1985 – 1990.
Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur frá árinu 1990 – 2007.
Sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur frá árinu 2007 – .
Sr. Hjörtur Hjartarson leysti sóknarprest af á árunum 1998 – 2005
tímabundið í hvert sinn.

Munir og gjafir í kirkjunni

Altaristaflan er unnin í mósaik eftir gömlu töflunni. Oidmann-bræður frá Þýskalandi unnu hana og notuðu milli fjögur og fimm hundruð þúsund steina og 280 litabrigði. Verkið kostaði um 230.000 krónur og söfnuðu fiskvinnslufyrirtæki hér í bæ fyrir henni.
Fyrir afganginn 110.000 krónur var keyptur flygill í kirkjuna.

Skírnarfonturinn er eftir Ásmund Sveinsson. Hann gaf Guðsteinn Eyjólfsson, frá Krosshúsum, verslunareigandi í Reykjavík.

Brúðarbekkir eru gjöf til minningar um Þórarinn Pétursson frá Valhöll, sem ekkjan hans gaf.

Úr gömlu kirkjunni, staðsettur í kirkjuskipinu er forláta útskorinn stóll eftir Ríkarð Jónsson.
Söfnuðurinn gaf sr. Brynjólfi Magnússyni stólinn. Síðar eftir lát hans gaf eftirlifandi eiginkona hans kirkjunni stólinn.

Eirverkið á kirkjuhurðum er eftir Viðar Hjaltason. Tréverkið gaf Guðmundur Ívarsson.

Klukkurnar eru þrjár, gjöf frá Lionsklúbbi Grindavíkur.

Í andyri kirkju er:
Innrammað vers eftir Hallgrím Pétursson. Minningargjöf.
Biblía sem var gefin kirkjunni.
Skjöldur, gefinn í minningu Árna Helgasonar.
Gefandi: Svavar Árnason, organisti og formaður sóknarnefndar til margra ára.
Gömul mynd af Kristi á krossinum.
Málverk eftir Vilhjálm Bergsson.

Staðsettur er á vegg fyrir ofan inngöngu í safnaðarheimilið ritaður texti, innrammaður í táknrænan viðarramma,
útskorinn eftir Ríkharð Jónsson.
Minningargjöf um Gísla Jónsson, útvegsbónda í Vík. Gefendur voru eiginkona og börn.